10.5.2008 | 16:13
Í dag er ...
ár síðan ég sat inn á læknastofunni í mjódd, nýbúin að fá sprautur í alla liði. Læknirinn hafði tilkynnt mér að sjúkdómurinn væri því miður kominn á það stig að ég yrði að hætta að vinna ótímabundið. Það gæti orðið einhverjir mánuðir- það gæti verið fyrir fullt og allt. Ég sat bara og starði á hana. Mig langaði helst að gubba af sársaukanum sem fylgdi sprautunum, vildi ekki trúa því sem hún sagði mér.....Hvernig endaði ég á þessum stað í lífinu? 34 ára kona sem hefur alltaf verið hraustari en fíll, alltaf unnið mikið, alltaf haft fyrir hlutunum, alltaf reynt að vera réttlát, alltaf reynt að vera til staðar.....Af hverju sat ég inni á læknastofu þar sem stoðirnar undan lífi mínu féllu til jarðar hver á fætur annarri? Líf mitt hrundi eins og spilaborg á nokkrum mínútum.
Læknirinn spurði mig hvort einhver gæti komið og sótt mig- því ég væri ekki fær um að keyra eftir sprauturnar- ég sagði henni að svo væri- þetta yrði allt í lagi. Ég skjögraði út í bíl þar sem ég féll algjörlega saman.......Ég grét eins og barn- sá ekki út úr augunum, náði varla andanum fyrir ekka. Ég veit ekki hvað ég sat þarna lengi, að lokum rofaði til og ég gerði mér grein fyrir að ég yrði að komast heim. Í fávisku minni fannst mér ég ekki geta hringt í fjölskylduna mína þar sem ég hafði valdið þeim svo miklum vonbrigðum í svo langan tíma með því að sitja í þessu sambandi við þáverandi sambýlismann minn. Þau voru öll löngu hætt að reyna að vera í sambandi við mig. Ég ákvað því að hringja í sambýlismanninn og biðja hann um að sækja mig ef hann mögulega gæti. Hann svaraði símanum með orðunum " Hvað viltu feita drasl?" Ég sagði honum að ég væri fyrir utan læknastofuna í mjódd, að ég hafi verið að koma frá lækninum - áður en ég gat klárað setninguna sagði hann við mig " Fínt ég vona að læknirinn hafi sagt þér að þú ættir tvær vikur eftir ólifaðar" Síðan skellti hann á.
Ég veit ekki hvað skeði á þessum tímapunkti - en það var eitthvað. Það slokknaði á einhverju í hjartanu mínu, ég upplifði það að vera algjörlega ein- og það sem verra var- ég hafði komið mér í þessar aðstæður. Ég hafði leyft þessum manni að koma svona fram við mig. Ég sat þarna góða stund í viðbót, algjörlega tilfinningalaus- algjörlega tóm.
Að lokum keyrði ég heim- beit á jaxlinn og keyrði heim, ældi á hverjum ljósum af sársauka- lagði bílnum út í kant á nokkurra mínútna fresti til að ná andanum. Að lokum komst ég heim. Heim- þar sem ég gat aldrei verið örugg. Heim - þar sem ég tiplaði á tánum til að fá ekki barsmíðar. Heim- þar sem ég gat ekki fest svefn - því ég vissi aldrei hverju ég átti von á. Heim - þar sem ég var fangi. Heim - þar sem ég var viðbjóður. Heim - þar sem ég átti að þjónusta sambýlismanninn og þekkja reglurnar sem hann breytti á hverjum degi. Heim- þar sem ég braut reglurnar sem ég átti að þekkja. Heim - þar sem ég var barin og niðurlægð fyrir að brjóta reglurnar. Þennan dag fyrir ári síðan var mér sama.
Þennan dag fyrir ári síðan var ég algjörlega buguð. Ég lagðist upp í rúm og var sama þó að sambýlismaðurinn fyndi mig þar, ef honum þóknaðist að koma heim. Hann mátti klára mig af ef hann vildi - mér var sama. Ég hafði gefist upp- ég beið þess sem kæmi- og var sama hvað það yrði.
Næstu 4 daga lá ég í rúminu, tóm, tilfinningalaus, buguð, ein - ég gat ekki einu sinni grátið. Ég fann ekki fyrir neinu. Ég hreyfði mig bara úr rúminu til að fara á klósettið- ekkert annað. Sambýlismaðurinn kom nokkrum sinnum inn í herbergið og lamdi mig til að fá viðbrögð - ég lá kyrr og bærði ekki á mér þrátt fyrir barsmíðarnar. Á nóttunni fékk hann vilja sínum framgengt - mér var sama- ég bærði ekki á mér. Hann dró mig fram úr rúminu, ýmist á fótunum, hárinu, handleggjunum eða með hálstaki. Síðan sleppti hann mér og ég bara lá á gólfinu, þar til ég fór næst á klósett- þá lagðist ég aftur í rúmið. Mér var sama. Ég hafði gefist upp á lífinu - gefist upp á mér sjálfri.
Svona var líf mitt fyrir akkúrat ári síðan.
Dísa
Athugasemdir
Til hamingju með að vera laus úr viðjum ofbeldisins. Það þarf mikið hugrekki til og þú svo sannarlega ert sterk manneskja
Dísa Dóra, 10.5.2008 kl. 17:20
Segi það sama til hamingju að vera laus við þennan drulluspaða...Vona að þú hafir það sem allra,allra best,og góða helgi..
Kær kveðja frá Hellu
Guðný Einarsdóttir, 10.5.2008 kl. 17:34
Það er eitt gott við þetta allt saman Vigga mín. Þetta er BÚIÐ þú þarft ekki framar að eiga von á þessu í þitt líf. Þú ert frjáls, þú ert ein, þú þarft ekki að þjóna neinum öðrum en sjálfri þér, þú þarft ekki að láta aðra segja þér hvað þú átt að gera, hvar þú átt að vera eða hvernig þú átt að haga þér.
Þú ert þú sjálf, og ert það eina sem skiptir svona miklu máli í þínu lífi. Þú ert manneskja sem að þú þarft að læra að elska og meta, ekki að láta aðra segja þér hvað þú átt að gera.
Til hamingju með það að vera laus úr þessari prísund, til hamingju með að vera komin í Paradís í samanburði við það sem þú varst í.
Haltu áfram að lifa lífnu fyrir þig og njóttu þess að vera frjáls... reyndar færðu aldrei frelsi frá mér hehehehe ég verð ávallt í lífi þínu, hvort sem þér líkar það betur eða verr....
lov ya dúllísnúllí
KEEP ON THE GOOD WORKS
Linda litla, 10.5.2008 kl. 18:40
Ég veit ekki hvernig athugasemdin mín á að hljóma en mig langar að segja svo mikið... ég ætla láta næga að segja að ég sat með tárin í augunum á meðan ég las þetta.
Gunnar Helgi Eysteinsson, 11.5.2008 kl. 10:38
Elsku Vigga mín,
Ég man eftir þessu, man eftir þér í fangelsinu, man eftir honum, hvernig hann lét við þig, hvað hann gerði þér. Ég man líka eftir hvernig þú stóðst upp dag eftir dag og stappaðir í mig stálið, ég man eftir því þegar við sátum báðar í tölvunni að tala saman á Skype með tárin rennandi, ég man eftir því þegar þú stóðst upp í síðasta skipti og sagðir nei hingað og ekki lengra! Ég lít upp til þín, þú ert algjör hetja! Haltu áfram á þessari braut, haltu áfram að vera sterk.....mundu að þú styrkist með hverjum deginum. Mundu að líta í spegil og sjá það sem við hin sjáum, fallega sæta skvísu með húmorinn í lagi. Mundu að þakka fyrir hvern einasta dag án þessa manns, mundu að við elskum þig öll. Farðu vel með þig dísin mín!
Gangi þér vel í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur enda ertu algjör orkubolti og HETJA!
Kær kveðja,
Týndi sauðurinn á Spáni..
Hjördís ..hin dísin á spáni (IP-tala skráð) 11.5.2008 kl. 14:49
Ég fékk tár í augun við að lesa þetta. hvenig lifðir þú af, þú gerðir það ekki þú varst í raun löngu komin úr líkamanum held ég. Að einhver vogi sér að koma svona framm við aðra manneskju engin skepna jafn grimm og mannskepnan. Guð geymi þig og sendi ljósið til þín.....
Sigríður Svala Hjaltadóttir, 11.5.2008 kl. 16:49
Takk fyrir allar fallegu athugasemdirnar frá ykkur, þær ylja manni um hjartarætur.
Þetta er bara þessi tími hjá mér.....
Maí árið 2007 var stór mánuður hjá mér, margir atburðir á stuttum tíma, atburðir sem ég hélt að ég kæmist ekki yfir - en viti menn...Það sem drepur mann ekki - styrkir mann. Býs við að ég sé að reyna að gera upp árið....svona fyrir mig - þar sem ég verð 1 árs þann 14. maí - það er að segja þá er ár síðan ég losnaði frá þessum fyrrum sambýlismanni - losnaði úr helvíti.....
Kv. Dísaskvísa
Dísaskvísa, 11.5.2008 kl. 22:17
Þessi færsla er í raun gleðifærsla þó hún sé svona hörmulega sorgleg. Hún sýnir manni nýja upphafið. Þú ert huguð kona og átt svo miklu betra skilið og það fannstu sjálf.
Ragnheiður , 12.5.2008 kl. 10:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.