10.6.2008 | 00:36
Ég ætla að endurfæðast sem ......
Í þessu lífi er ég víst kona!
Í næsta lífi vil ég verða skógarbjörn.
Ef þú ert björn færðu að leggjast í dvala, þú gerir ekkert annað en að sofa í sex mánuði.
Ég gæti lifað með því.
Áður en þú leggst í dvala áttu að troða þig út af mat þangað til þú stendur á gati.
Ég gæti líka lifað með því.
Ef þú ert kvenkynsbjörn þá fæðirðu ungana þína (sem eru á stærð við hnetur) á meðan þú sefur og þegar þú vaknar ertu komin með stálpuð sjálfbjarga bangsakrútt.
Ég gæti sko alveg lifað með því.
Ef þú ert bjarnarmamma þá vita allir að þér er alvara.
Þú abbast upp á þá sem abbast upp á ungana þína og ef ungarnir þínir eru eitthvað óþægir, þá abbastu upp á þá líka.
Ég gæti lifað með þessu.
Ef þú ert birna þá BÝST maki þinn við því að þú vaknir urrandi og hann REIKNAR MEÐ því að þú sért loðin á leggjunum og með hátt hlutfall líkamsfitu.
Jebb, ég ætla svooo að verða skógarbjörn!!!
Dísa "Skógarbirna"
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.6.2008 | 19:14
Langt helgarfrí frá skólanum.....
Ég var í munnlegu lokaprófi í dag og er fegin að því er lokið. Veit ekki hvernig gekk en ég gerði mitt besta, betur get ég ekki gert! - vona bara að áfanginn sé staðinn.
Næsti áfangi og sá síðasti á sumarönninn hefst á mánudag og stendur til 28. júní. Þetta er alveg að klárast - sem betur fer því ég er alveg á síðustu dropunum, verð ég að viðurkenna. Samt finn ég mun á mér eftir að ég byrjaði í járningunni- fer einmitt í það á morgun. Ég ætla bara að "chilla" í kvöld og gera sem minnst.
Kannski að ég noti helgina til að reyna að finna mér nýjan bíl
Hafið það gott
Dísaskvísan
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
3.6.2008 | 09:46
Meiri lukka!!
Gigta mín hringdi í mig í gærkvöldi - í höndunum hafði hún undanþágu fyrir nýjum lyfjum handa mér!!
ÉG ER SEM SAGT AÐ FÁ NÝ LYF!!!
Ferlið er farið af stað- þarf að fara í járn tvisvar í viku næstu vikurnar- um leið og það er komið vel á veg þá verður hringt í mig frá spítalanum og ég fer til þeirra þar og læri að sprauta mig. Þegar ég hef náð tökum á því þá má ég byrja á þessum nýju lyfjum. Gigta á von á því að þetta eigi eftir að gera kraftaverk fyrir mig. Ég vona það- ég hef ekki upplifað verkjalausan dag síðan í janúar og vil því fara að fá slíkan dag og marga slíka daga. Já frekjan ég!!!!!
Get ekki beðið eftir að verða ég aftur!
Ég hef alltaf sagt það og segi það enn og aftur- Ég er lukkunarpamfíll!!!
Kærleikskveðja
Dísa - á ég að sprauta onum?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
29.5.2008 | 23:32
Er að leita mér að nýjum bíl
Já - VÍS hringdi í dag og þeir ætla að kaupa af mér Fratdrusluna!!! Ég mun koma út á núlli - og ég er ekkert smá ánægð. Nú er ég að leita mér að nýjum bíl, ætla að fá mér einhverja netta dollu til að skottast um á. Það er næsta verkefni.
Á morgun fer ég í járningu, verð alltaf svolítið kvíðin fyrir því- ætla að taka með mér góða bók og þá mun tíminn fljúga áfram. Síðan ætla ég að hitta hana móður mína- hún er að koma heim í nótt. Átti reyndar að koma í morgun en það var endalaus seinkunn, hún búin að sitja upp á velli í einhverja 12 eða 15 tíma en fór þá heim aftur. Síðan var flogið seint í kvöld og ég held að hún eigi að lenda í nótt um 2 leytið. Það verður dásamlegt að knúsa kellu.
Held að það sé ekki meira að segja í bili
Hafið það bara gott kæru bloggvinir sem og aðrir sem detta hér inn.
Dísa
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
27.5.2008 | 21:18
Good news at last!!
Góðar fréttir af öllum vígstöðvum. Skrópaði í skólnum á mánudag til að arrisera öllu því sem ég hef látið sitja á hakanum svo lengi. Fór niður í VÍS vegna Fiats Frats og þeir eru að skoða þessi mál- fæ væntanlega að vita eitthvað á fimmtudag eða svo. Sem betur fer er Fratkerran í kaskó - þannig að ég er að vonast til að þetta verði lagað- kemur í ljós fimmtudag.
Því næst lá leið mín upp á spítala þar sem ég fór í blóðprufu, Gigta mín hringdi svo í mig tveimur tímum seinna með niðurstöður. Það mælist ekki í mér járn og ég er komin niður í 70 í blóði- ekki nógu gott. Fer í járningu á föstudag. Það er búið að sækja um undanþágu fyrir sprautulyfin og er Gigta vongóð um að það fari í gegn núna Ég krossa fingur!! Væri geðveikt ef þetta gengur og ég fer að fá smá bata og verð jafnvel kannski verkjalaus!!!
Mamma er að koma heim á fimmtudag- get ekki beðið eftir að hitta hana. Svo er ferming um helgina þannig að það er bara brjálað að gera.
Ég er í áfanga núna sem heitir verðbréfa og kauphallaréttur- ekki sá skemmtilegast og eiginlega get ég ekki beðið eftir að hann klárist, en það verður lokapróf í honum 5. og 6. júní- og hvað haldið þið!!! Það verður munnlegt próf- svona af því að mér þykir svo gaman í þeim. Þann 9. júní hefst svo síðasti áfanginn, en það er Stjórnsýsluréttur. Skólanum lýkur svo 28. júní með lokaprófi í þeim áfanga. Þetta er farið að styttast og ég sé sumarið í hyllingum.
Kem með update fyrir helgina.
Kærleikskveðjur,
Dísa sumarstúlkan
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.5.2008 | 23:04
Ég er í tómu tjóni
Ekki veit ég hvað er að - en það er eitthvað verulega skrýtið í gangi hjá mér!
Ég er alltaf að berjast við að vera jákvæð og gera mitt besta en það virðist allt vera á móti mér núna. Síðan um áramót hef ég verið að reyna að koma ýmsum málum í lag hjá mér. Alltaf hugsa ég að hlutirnir verði betri eftir nokkrar vikur - eftir nokkrar vikur og eftir nokkrar vikur. Samt er allt alveg eins ennþá. Loksins þegar ég sé fyrir endanum á einum hlut þá kemur eitthvað nýtt upp á og allt er við það sama hjá mér. Ég verð nú að segja alveg eins og er:
MÉR FINNST ÉG VERA AÐ BERJAST VIÐ VINDMYLLUR.
Ég er orðin þokkalega þreytt á þessu og er komin að því að gefast bara upp. Sem dæmi get ég sagt ykkur þetta. Ég hef alltaf átt druslur- misgamlar og misgóðar. Ekki misskilja mig- þær hafa allar verið yndislegar á sinn hátt. Ég keypti mér nýlegan bíl í október- Fiat árgerð 2004- ég hef aldrei átt svona nýlegan bíl. Hann er búinn að vera bilaður síðan og ég er að fríka út á þessu! Fyrst fór Altenatorinn í honum, það kostaði 22.000 að gera við hann. Síðan bilaði bílinn aftur viku seinna- þá var það kúplingin- farin! Ég varð að bíða eftir varahlutum sem kostuðu um 30.000 og loksins komu þeir. Þá hófst biðin eftir að fá viðgerð. Loksins var farið að gera við kvikindið- nei þá kemur í ljós að gírkassinn er í henglum!!! Nýr gírkassi kostar 350.000, ný kúpling 60.000 og þetta eru bara varahlutirnir- þá á eftir að gera við drulludrossíuna!!! Er þetta hægt??!!
Ég spyr- hvað hef ég gert til að verðskulda þetta?
Alla veganna þá gefst ég upp á þessu - bílkvikindið fer á haugana um leið og ég kemst í bæinn.
Ég er hætt og farin í bili
Dísaskvísan
p.s ég prufaði að keyra púkann á þessa færslu og hann kom með breytingartillögu við Fiat og tillagan var FRAT - hverju orði sannara!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
21.5.2008 | 09:47
MYGLUÐ - MYGLAÐRI - LANG MYGLUÐUST!!!!
Ég er svoooo mygluð í dag!!!!
Ég mætti sem sagt svona í skólann í morgun
Algjörlega úthverf af myglu og með djúpar krumpur í geðinu. Það fór hreinlega allt í taugarnar á mér- svona fyrsta tímann. Þegar ég hafði náð að drekka fyrstu tvo kaffibollana þá fóru óveðurskýjin fyrir ofan höfuð mitt að hverfa. Nú er ég betri. Vildi bara svona deila þessu með ykkur kæru vinir og vandamenn.
Kveðja,
Dísa myglukrump
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
18.5.2008 | 23:25
Lífið er yndislegt
Það eru tveir dagar í gigtarlækni. Ég er rosalega spennt því ég er að vona að gigta sæki um undanþágu fyrir mig. Mínum langar að fá ný lyf því ég er alveg að farast í skrokknum. Auðvitað veit ég að það eru margir sem eru verr haldnir en ég....ég geri mér vel grein fyrir því. Það sem hræðir mig hins vegar er það hversu hratt mér hefur hrakað!! Ég er samt búin að ákveða það að ég mun verða brátt verkjalaus og fara að blómstra sem aldrei fyrr.
Gott plan það!!
Annars er bara allt svo gott núna - ég er svo sátt við lífið - er að gera mitt besta í skólanum, þetta er strembið-vissulega en vel þess virði. Ég er á einhverjum stað í lífinu sem ég er svo sátt við- auðvitað má alltaf eitthvað vera betra en þá stefnir maður bara að því-er það ekki?
Annars erum við vinkonurnar að plana konuferð upp í bústaðinn minn og erum búnar að panta gott veður og allt. Þetta verður bara skemmtilegt, erum búnar að finna upp á mörgu sem við ætlum að láta verða af í bústaðnum. Þið fáið þær sögur þegar að því kemur. Ég veit bara að við eigum eftir að hlægja á okkur gat sko. Þessar æskuvinkonur mínar eru svo yndislegir karakterar, svo frábærar - ég er svo heppin að fá að vera hluti af þessum vinarhóp. Draumur!!
Þetta sumar á bara eftir að vera frábært- vitið þið til!!!
Kv.
Dísa sumarstelpa
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.5.2008 | 00:46
Ég hljóp mér til lífs
Það var á fjórða degi sem ég tíndi mig saman og fór á fætur. Það var komið að því ég varð að enda þetta. Ég gat ekki meir- átti ekki meira til, fann ekki meir- ég var algjörlega búin á því. Mér var sama hvað sambýlismaðurinn mundi gera mér, en ég bað upp til Guðs að hann mundi hlífa fjölskyldunni minni. Þessi fyrrum sambýlismaður minn er frá Bosníu og er fyrrum hermaður. Hann fékk þjálfun í að drepa fólk, hann fékk þjálfun í að pynta fólk og það sem verra er- hann nýtur þess til ystu æsar. Hann hafði svo oft hótað að ganga frá mér og fjölskyldu minni. Í mínum óttaslegna huga trúði ég því (og trúi því reyndar enn) að hann sé fær um að gera slíka hluti-án þess að blikna.
Ég fór fram í stofu þar sem hann sat í tölvunni - í sínum drápsleik- ég talaði við hann á rólegum og lágum nótum. Ég bað hann um að gera það sem hann hafði sagst ætla að gera í svo langan tíma- að flytja sem lengst frá mér. Þar sem hann væri svona óhamingjusamur með mér, þar sem hann vildi ekki vera með mér lengur og þar sem hann hafi svo oft talað um að hann væri að leita sér að húsnæði til að komast frá viðbjóðnum mér þá væri best ef hann mundi gera það sem fyrst. Ég hefði ekki áhuga á að vera með manni sem bæri slíkar tilfinningar til mín og því þætti mér vænt um ef hann gæti fundið sér annan samastað sem allra fyrst. Sambýlismaðurinn, sem hafði einungis ýtt heyrnartólin frá öðru eyranu til að hlusta, glotti og sendi mér fingurinn. Þegar ég stóð upp af sófanum til að ganga í burtu þá sá ég hann koma fljúgandi þvert yfir stofuna. Hann lenti harkalega á mér og ég skall í gólfið og lá föst undir honum. Höggin dundu á mér Mér var sama - svo lengi sem fjölskyldu minni yrði hlíft. Þegar ég sá í augun á honum..........þá vissi ég að þessu var lokið. Ég hef aldrei séð þvílíka grimmd áður, andlit hans var afmyndað af grimmd- ég vissi að hann mundi ekki hætta fyrr en ég lægi í valnum.
Á þeirri stundu kviknaði lífsviljinn í mér. Ég heyrði skyndilega sjálfa mig öskra af öllum lífs- og sálarkröftum, ég öskraði í von um að nágrannakona mín mundi bjarga mér eina ferðina enn, ég öskraði í von að einhver vegfarandi mundi heyra í mér, ég öskraði í von um að halda lífi.......Ég heyrði hins vegar engin sírenuvæl í fjarska eins og ég hafði svo oft heyrt áður það var engin að koma að bjarga mér í þetta sinn. Ég var ein- ég var dauðans matur. Í einhverjar sekúndur hvarflaði að mér að gefast upp- láta undan- leyfa honum að klára mig af..........Lífsvilji minn lét aftur á sér kræla- nei....Nei.......NEI, hann skyldi ekki fá að ganga frá mér dauðri þennan dag....REYNDAR SKYLDI HANN ALDREI FÁ AÐ GANGA FRÁ MÉR DAUÐRI......ALDREI.........ALDREI
Ég veit ekki hvernig ég komst undan þunga líkama hans, en einhvern veginn tókst mér það engu að síður. Ég náði að ýta honum frá mér, ég náði að komast armslengd frá honum en hann náði í hárið á mér og ríghélt mér. Ég man að ég hugsaði Ég slít mig lausa þó ég þurfi að rífa af mér höfuðleðrið- hann skal ekki ná að ganga frá mér. Ég rykkti höfðinu til hvað eftir annað þar til ég hafði slitið mig lausa- hann stóð með hendurnar fullar af hári. Hann náði í annan fótinn á mér- ég náði hins vegar taki á hurðagaflinum og ég rykkti fætinum til þar til ég losnaði- ég var laus..........Ég hljóp ég hljóp til frelsis- ég hljóp mér til lífs.
Ég hljóp eins og hræddur héri beint af augum, á sokkaleistunum, ég hljóp þar til ég var fullviss um að hann væri ekki á eftir mér- þá faldi ég mig niður í Laugardal. Seint um kvöldið sneri ég tilbaka og tók mér skjól í bílnum mínum. Mér hafði lærst að skilja hann ávallt eftir ólæstan. Ég var ekki með peninga, ekki með lykla, ekki með síma- ekki neitt.
Sambýlismaðurinn koma einu sinni að bílnum, talaði við mig gegnum lokaða rúðu og læsta hurð. Hann sagði að mér hafi verið nær að tala svona til hans, ég skyldi nú drullast inn og læra að haga mér- annars væri honum að mæta. Ég leit blákalt framan í hann - sagði honum að taka sitt hafurtask og koma sér út á stundinni, því það fyrsta sem ég mundi gera næsta dag væri að fara til lögreglunnar og kæra hann. Ég sat alla nóttina í bílnum- þorði varla að depla auga. Var hrædd um að hann mundi brjóta rúðuna í bílnum eina ferðina enn og ná mér.
Næsta morgun pakkaði sambýlismaðurinn saman og fór. Ég trúði því varla. Ég rauk inn í íbúðina mína- eins og ég bjóst við þá lá dótið mitt á tjá og tundri, búið að brjóta sumt og skera föt í sundur, mér var sama. Skyndilega heyrði ég útihurðina opna...... ég hafi ekki gengið ekki úr skugga um að hann hafi skilið eftir lyklana. Hann kom inn- vopnaður veiðihnífnum sínum - gekk að mér- stillti mér upp við vegg, hélt hnífnum nálægt háls mínum og sagði mér að þegar hann færi að stráfella fólk þá mundi hann byrja á mér. Að því loknu gekk hann út!!!!!!
ÉG TRÚÐI ÞESSU EKKI- ÉG VAR SIGURVEGARI- ÉG VAR LAUS.......ÉG .......VAR .......hrædd!
Ég var reyndar skelfingu lostin, ég hringdi í stóra bróður minn og bað hann um að lána mér verkfæri til að setja upp keðjulás á hurðina. Þessi ótrúlegi stóri bróðir minn og konan hans voru mætt á staðinn innan fárra mínútna. Hann fór með mig upp á spítala. Hann hvatti mig til að fara til lögreglunnar og kæra manninn- sem ég gerði. Þessi stóri bróðir minn var mættur heim til mín kl 17:15 á hverjum degi og vann við að laga skemmdirnar í íbúðinni sem sambýlismaðurinn hafði skilið eftir sig. Þetta var hans leið til að sýna mér stuðning og styrk. Við unnum hörðum höndum við að koma íbúðinni í íbúðarhæft ástand, það tókst að lokum og ég leigði hana út frá byrjun júní. Ég hugsaði lengi hvernig ég gæti endurgreitt þessum ótrúlega stóra bróður mínum og hans ótrúlegu konu fyrir alla aðstoðina - að lokum fann ég leið til þess- ég gaf þeim hjónum gjafabréf til Evrópu- hvert sem þau vildu fara.
Ég lét lítið fyrir mér fara, hélt mig að mestu upp í bústað þar sem íbúðin var komin á leigu- ég lánaði líka bílinn minn, var mikið ein, sleikti sárin og tók til í höfðinu á mér. Um miðjan júní tók ég ákvörðun um að fara af landinu í nokkra mánuði á meðan þetta gekk yfir- ég held að það hafi verið það eina rétta. Þessi fyrrum sambýlismaður minn kom margoft - trekk í trekk heim til mín að leita að mér með allskyns hótanir í minn garð og annarra. Hann var með aðdróttanir um hluti sem ég átti að hafa gert á hans hlut á meðan ég var fjarri. Ég hins vegar slökkti á símanum lét mig hverfa í dágóðan tíma.
Smám saman hef ég verið að tína upp brotin, finna sjálfa mig, læra að treysta fólki, læra að treysta á mig, læra að þykja vænt um mig. Ég mun aldrei snúa aftur í íbúðina mína, hún mun fara á sölu- ég get aldrei búið þar - í mínum huga er hún fangelsi. Það skiptir ekki máli, ég mun kaupa aðra og gera hana að minni og vera þar örugg. Ég mun byggja mér þar örugg heimili.
En það sem er mikilvægast af öllu er þetta-Ég er laus- ég er sigurvegari
Þessi dagur fyrir ári síðan var minn mesti hamingju- og happadagur- allt hið slæma sem á undan hafði gengið ......skiptir ekki lengur máli því ég er sigurvegari.
Ég tek framtíðinni opnum örmum, því ég er laus, ég er frjáls, ég er á lífi og ég er sigurvegari. Það líður ekki sá dagur að ég þakki ekki Guði fyrir að vera laus við þennan mann, þakki fyrir að vera á lífi.
Dísa
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
10.5.2008 | 16:13
Í dag er ...
ár síðan ég sat inn á læknastofunni í mjódd, nýbúin að fá sprautur í alla liði. Læknirinn hafði tilkynnt mér að sjúkdómurinn væri því miður kominn á það stig að ég yrði að hætta að vinna ótímabundið. Það gæti orðið einhverjir mánuðir- það gæti verið fyrir fullt og allt. Ég sat bara og starði á hana. Mig langaði helst að gubba af sársaukanum sem fylgdi sprautunum, vildi ekki trúa því sem hún sagði mér.....Hvernig endaði ég á þessum stað í lífinu? 34 ára kona sem hefur alltaf verið hraustari en fíll, alltaf unnið mikið, alltaf haft fyrir hlutunum, alltaf reynt að vera réttlát, alltaf reynt að vera til staðar.....Af hverju sat ég inni á læknastofu þar sem stoðirnar undan lífi mínu féllu til jarðar hver á fætur annarri? Líf mitt hrundi eins og spilaborg á nokkrum mínútum.
Læknirinn spurði mig hvort einhver gæti komið og sótt mig- því ég væri ekki fær um að keyra eftir sprauturnar- ég sagði henni að svo væri- þetta yrði allt í lagi. Ég skjögraði út í bíl þar sem ég féll algjörlega saman.......Ég grét eins og barn- sá ekki út úr augunum, náði varla andanum fyrir ekka. Ég veit ekki hvað ég sat þarna lengi, að lokum rofaði til og ég gerði mér grein fyrir að ég yrði að komast heim. Í fávisku minni fannst mér ég ekki geta hringt í fjölskylduna mína þar sem ég hafði valdið þeim svo miklum vonbrigðum í svo langan tíma með því að sitja í þessu sambandi við þáverandi sambýlismann minn. Þau voru öll löngu hætt að reyna að vera í sambandi við mig. Ég ákvað því að hringja í sambýlismanninn og biðja hann um að sækja mig ef hann mögulega gæti. Hann svaraði símanum með orðunum " Hvað viltu feita drasl?" Ég sagði honum að ég væri fyrir utan læknastofuna í mjódd, að ég hafi verið að koma frá lækninum - áður en ég gat klárað setninguna sagði hann við mig " Fínt ég vona að læknirinn hafi sagt þér að þú ættir tvær vikur eftir ólifaðar" Síðan skellti hann á.
Ég veit ekki hvað skeði á þessum tímapunkti - en það var eitthvað. Það slokknaði á einhverju í hjartanu mínu, ég upplifði það að vera algjörlega ein- og það sem verra var- ég hafði komið mér í þessar aðstæður. Ég hafði leyft þessum manni að koma svona fram við mig. Ég sat þarna góða stund í viðbót, algjörlega tilfinningalaus- algjörlega tóm.
Að lokum keyrði ég heim- beit á jaxlinn og keyrði heim, ældi á hverjum ljósum af sársauka- lagði bílnum út í kant á nokkurra mínútna fresti til að ná andanum. Að lokum komst ég heim. Heim- þar sem ég gat aldrei verið örugg. Heim - þar sem ég tiplaði á tánum til að fá ekki barsmíðar. Heim- þar sem ég gat ekki fest svefn - því ég vissi aldrei hverju ég átti von á. Heim - þar sem ég var fangi. Heim - þar sem ég var viðbjóður. Heim - þar sem ég átti að þjónusta sambýlismanninn og þekkja reglurnar sem hann breytti á hverjum degi. Heim- þar sem ég braut reglurnar sem ég átti að þekkja. Heim - þar sem ég var barin og niðurlægð fyrir að brjóta reglurnar. Þennan dag fyrir ári síðan var mér sama.
Þennan dag fyrir ári síðan var ég algjörlega buguð. Ég lagðist upp í rúm og var sama þó að sambýlismaðurinn fyndi mig þar, ef honum þóknaðist að koma heim. Hann mátti klára mig af ef hann vildi - mér var sama. Ég hafði gefist upp- ég beið þess sem kæmi- og var sama hvað það yrði.
Næstu 4 daga lá ég í rúminu, tóm, tilfinningalaus, buguð, ein - ég gat ekki einu sinni grátið. Ég fann ekki fyrir neinu. Ég hreyfði mig bara úr rúminu til að fara á klósettið- ekkert annað. Sambýlismaðurinn kom nokkrum sinnum inn í herbergið og lamdi mig til að fá viðbrögð - ég lá kyrr og bærði ekki á mér þrátt fyrir barsmíðarnar. Á nóttunni fékk hann vilja sínum framgengt - mér var sama- ég bærði ekki á mér. Hann dró mig fram úr rúminu, ýmist á fótunum, hárinu, handleggjunum eða með hálstaki. Síðan sleppti hann mér og ég bara lá á gólfinu, þar til ég fór næst á klósett- þá lagðist ég aftur í rúmið. Mér var sama. Ég hafði gefist upp á lífinu - gefist upp á mér sjálfri.
Svona var líf mitt fyrir akkúrat ári síðan.
Dísa
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)